Ávarp forstjóra
Afkoma TM á árinu 2018 markaðist annars vegar af nokkrum stórum tjónum á fyrri helmingi ársins og hins vegar af deyfð á verðbréfamörkuðum. Niðurstaðan er hagnaður upp á 701 milljón króna sem er minni hagnaður en rekstarspá ársins gerði ráð fyrir og minni hagnaður en síðustu ár. Þrátt fyrir þessa rekstrarniðurstöðu var starfsemin blómleg á árinu og félagið steig stór skref inn í framtíðina í samræmi við leiðarstefið hugsum í framtíð.
Í rekstrarspá ársins 2018 var lagt upp með að hagnaður af starfsemi TM yrði ámóta og árið á undan. En stundum fara hlutirnir öðruvísi en ætlað er og það þekkjum við auðvitað í okkar fagi. Þegar aðeins fjórir mánuðir voru liðnir af árinu var orðið ljóst að spáin hvað varðar tryggingahlutann í starfseminni myndi ekki standast. Nokkur mjög kostnaðarsöm stærri tjón höfðu þá orðið sem röskuðu spám og afkomuvæntingum og voru á skjön við meðaltöl og tjónasögu. Að auki var matsþróun á eldri tjónum óhagstæð; tjón sem urðu fyrir nokkrum árum og tíma hefur tekið að gera upp reyndust dýrari en áætlað var.
Á umliðnum árum hefur tryggingastarfsemin og fjárfestingastarfsemin stundum vegið hvor aðra upp. Góð ávöxtun á verðbréfamarkaði hefur dekkað lakari afkomu í tryggingunum og öfugt. En því var ekki að heilsa árið 2018. Verðbréfamarkaðurinn var þungur og ávöxtunarmöguleikar almennt rýrir sem sést glögglega á markaðsvísitölu Gamma sem hækkaði um aðeins 3,7% á árinu. Í þessu erfiða árferði náði TM 6,6% ávöxtun á fjárfestingar sínar sem telja má gott þótt það sé nokkuð undir meðaltali síðustu ára.
TM hugsar í framtíð og kappkostar að mæta kröfum um nýja viðskiptahætti. Í byrjun árs 2018 var TM appinu hleypt af stokkunum en í því hafa viðskiptavinir greiðan aðgang að yfirlitum yfir tryggingar og iðgjöld og geta tilkynnt innbúskaskótjón. Í lok árs var svo opnað fyrir sjálfvirka sölu á öllum algengustu tryggingum fyrir einstaklinga á netinu. Að baki er nokkurra ára undirbúningur og TM er stolt af því að vera leiðandi á markaði í stafrænni þróun. Í þessum nýjungum felast þægindi fyrir viðskiptavini, þetta er sú samskiptaleið sem margir kjósa og um leið skapast margvíslegt hagræði fyrir félagið.
Þrátt fyrir að reksturinn 2018 hafi verið þyngri en vonir stóðu til er full ástæða til bjartsýni. Spá um „hefðbundin“ tjón ársins gengu í meginatriðum eftir og matsþróun á eldri tjónum hefur verið uppfærð í takt við reynslu síðasta árs. Horfur eru á kólnun í hagkerfinu og við þær aðstæður dregur úr tjónum. Því er ekki annars að vænta en að samsetta hlutfallið lækki á ný og verði undir 100%. Erfiðara er að spá fyrir um þróunina á verðbréfamarkaði. Á síðasta ári seldi félagið hluti sína í Festi og á þessu ári hlutabréf í Arnarlaxi með góðum hagnaði og nýir fjárfestingakostir verða metnir af kostgæfni.
Árangur í samkeppnisrekstri á viðkvæmum og mikilvægum markaði ræðst af mörgum atriðum. Innviðir og menning fyrirtækja skipta þar sköpum og TM leggur stöðuga áherslu á að efla þá þætti. Helgun starfsfólks, sem er einn lykilmælikvarða félagsins, mælist há í samanburði við önnur fyrirtæki, félagið er aðili að Jafnréttisvísi Capacent, það á aðild að Samtökum um ábyrgar fjárfestingar, leiðbeiningum um góða stjórnarhætti er fylgt og margt fleira mætti telja. Þegar saman fara þættir á borð við þessa, framúrskarandi starfsfólk og traust fjárhagsstaða er líklegt að árangurinn verði góður.
Sigurður Viðarsson