Ávarp stjórnarformanns

Árið 2018 var viðburðaríkt hjá TM. Reksturinn var krefjandi í erfiðu árferði og hagnaðurinn minni en síðustu ár. Lagt er til að 700 milljónir króna verði greiddar í arð eða sem nemur hagnaði ársins. Tillagan er í samræmi við arðgreiðslustefnu og áhættuvilja félagsins. Horfur eru á minni vexti í hagkerfinu en síðustu ár og er ástæða til að ætla að við það fækki tjónum. TM er búið undir að veita þjónustu á breiðari grunni en áður.

Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Eftir ládeyðu í kjölfar falls bankanna tók við mikil og hröð uppbygging svo sem sjá hefur mátt, meðal annars á fjölda byggingakrana á höfuðborgarsvæðinu. TM hefur ekki farið varhluta af uppsveiflunni og hefur starfsemin vaxið í takt við samfélagið. Um leið hefur tjónum fjölgað en það er vel þekkt staðreynd að sá þáttur tryggingastarfseminnar fylgir hagsveiflum mjög nákvæmlega. Spáð er að hagvöxtur verði nokkuð minni á árinu 2019 en síðustu ár og ætti tíðni tjóna að lækka því samfara.

Því er stundum haldið fram að ekki ríki samkeppni á íslenskum tryggingamarkaði en veruleikinn er annar. Frá árinu 2013 þegar TM var skráð í Kauphöll hefur tjónakostnaður hækkað um 60% á meðan iðgjöld hafa hækkað um 35%. Í hörðu samkeppnisumhverfinu hefur verið ógjörningur að hækka öll iðgjöld til fulls samræmis við hærri tjónakostnað. Honum hefur verið mætt með betri og nákvæmari verðlagningu þar sem áhætta hvers og eins viðskiptavinar er metin auk annarra aðgerða sem styrkja félagið til framtíðar.

Ljóst er að margt í íslensku samfélagi mun ráðast af kjarasamningum sem gerðir verða á almennum vinnumarkaði. Ekki er samstaða um það við samningaborðið að leggja megináherslu á stöðugleika og kaupmátt og eins og nú horfir er raunveruleg hætta á að verðbólgan fari af stað með tilheyrandi afleiðingum fyrir þjóðfélagið. Þar með verður sögulegt tækifæri til vaxtalækkana að engu en það er öllum í hag og veruleg lífskjarabót að vextir á Íslandi lækki og verði eitthvað í námunda við það sem gerist í samanburðarlöndunum.

Í samræmi við stefnu TM um að útvíkka starfsemina fóru á árinu fram viðræður um kaup á fjármögnunarfyrirtækinu Lykli. Samningar tókust ekki en að baki er mikil vinna sem mun nýtast ef og þegar ný tækifæri bjóðast. Er horft til þess að fjölga stoðunum undir rekstri fyrirtækisins og dreifa áhættu. Samlegð og margvísleg tækifæri geta falist í að bæta fjármögnun eða annarri fjármálatengdri starfsemi við tryggingaþjónustuna og fjárfestingarnar sem félagið sinnir.

Á þessum vettvangi hefur verið kallað eftir afnámi gjaldeyrishafta og þeirra sérstöku skatta sem fjármálafyrirtæki hafa mátt greiða í að verða tíu ár. Nú heyra höftin svo gott sem sögunni til og ástæða er til að hvetja stjórnvöld til að fylgja þeirri aðgerð eftir með því að færa skattaumhverfi fjármálafyrirtækja til samræmis við það sem önnur fyrirtæki í landinu búa við. Þótt færa hafi mátt rök fyrir sérstakri skattlagningu banka í kjölfar hrunsins þá er sá tími löngu liðinn og engin efni standa til að viðhalda því fyrirkomulagi að skattleggja sumar atvinnugreinar langt umfram aðrar.

Stjórn leggur til við aðalfund að arðgreiðslur vegna ársins 2018 nemi 700 milljónum króna. Tillagan er í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins sem byggist á áhættuvilja og fleiri þáttum. Að öllu virtu telur stjórn eðlilegt að allur hagnaður ársins renni til eigenda félagsins og segir það sitt um sterka stöðu þess.

Örvar Kærnested