Rekstrarniðurstöður 2018

Hagnaður eftir skatta nam 701 m.kr. og litaðist afkoma félagsins af stórum tjónum og óhagstæðri þróun verðbréfamarkaða. Arðsemi eigin fjár var 5,3% en markmið félagsins er að hún sé hærri en 15%. Tillaga stjórnar fyrir aðalfund er að greidd verði 1 kr. í arð á hvern hlut, eða 700 m.kr. Einnig verður lagt til að á árinu 2019 verði veitt heimild til kaupa á eigin bréfum.

  • Hagnaður ársins var 701 m.kr. og hagnaður á hlut var 1,03 kr. (2017: 3.123 m.kr. og 4,61 kr.)
  • Hagnaður fyrir skatta var 700 m.kr. (2017: 3.207 m.kr.)
  • Framlegð af vátryggingastarfsemi var neikvæð um 609 m.kr. (2017: jákvæð um 97 m.kr.)
  • Fjárfestingatekjur voru 1.817 m.kr. (2017: 3.750 m.kr.) og ávöxtun fjárfestingaeigna var 6,6% (2017: 14,9%)
  • Samsett hlutfall var 103,9% (2017: 99,4%)
  • Bókfærð iðgjöld jukust um 4,3% á milli ára
  • Eigin iðgjöld jukust um 4,4% á milli ára
  • Eigin tjón hækkuðu um 10,6% á milli ára
  • Rekstrarkostnaður hækkaði um 4,0% á milli ára
  • Arðsemi eigin fjár var 5,3% (2017: 24,2%)

Rekstur

Á árinu 2018 var samsett hlutfall TM 103,9% og hækkaði milli ára en samsett hlutfall ársins 2017 var 99,4%. Eigin iðgjöld jukust um 4,4% en ná ekki að halda í við hækkun tjónakostnaðar sem var 10,6% milli ára. Verri afkoma af vátryggingastarfsemi skýrist einkum af hærra tjónshlutfalli í eignatryggingum og skipatryggingum. Afkoma slysatrygginga batnaði verulega á milli ára en afkoma ökutækjatrygginga versnaði hins vegar. Líftryggingar voru reknar með hagnaði líkt og á undanförnum árum en þær vega hins vegar ekki þungt í heildariðgjöldum. Hagnaður TM á árinu 2018 var 701 m.kr. eftir skatta og framlegð af vátryggingastafsemi var neikvæð um 609 m.kr. Kostnaðarhlutfall félagsins á árinu var 19,9% og náðist markmið TM að ná kostnaðarhlutfalli undir 20%. Heildartekjur félagsins námu 17.516 m.kr. árið 2018 og lækkuðu um 7% frá árinu 2017.

Fjárfestingatekjur námu 1.817 m.kr. á árinu 2018. Það jafngildir 6,6% ávöxtun fjárfestinga en til samanburðar hækkaði markaðsvísitala Gamma um 3,7% á árinu. Ávöxtun fjáreigna TM var því vel undir meðalávöxtun síðastliðinna fimm ára sem var 12,7%. Vaxtagjöld hækka á milli ára vegna hærri verðbólgu en virðisrýrnun fjáreigna lækkaði töluvert á árinu 2018.

Heildargjöld félagsins námu 16.816 kr. árið 2018 sem er 8% hækkun frá árinu 2017. Tekjuskattur var enginn á árinu en hagnaður félagsins eftir skatta nam 701 m.kr. sem er 78% lækkun frá fyrra ári.

Efnahagur

Efnahagur TM hefur verið mjög traustur um árabil með háu eiginfjár- og gjaldþolshlutfalli. Eiginfjárhlutfall var 38,4% í lok árs 2018 og gjaldþolshlutfallið 1,74 eftir að tekið hefur verið tillit til arðgreiðslu.

Eignir

Í efnahagsreikningi TM er fjárfestingaeignum skipt í fjárfestingafasteignir, bundin innlán, útlán, verðbréf og handbært fé. Í árslok 2018 nam fjárfestingasafn TM 28.936 m.kr. en það vegur um 84% af heildareignum félagsins sem námu 34.651 m.kr.

Eign TM í verðbréfum hélst svipuð á milli ára og nam 26.438 m.kr. í árslok 2018. Handbært fé og bundin innlán námu 1.444 m.kr. sem jafngildir um 5% af fjárfestingasafninu. Útlán félagsins lækkuðu á árinu en megnið af þeim eru bílalán til viðskiptavina.

Rekstrarfjármunir félagsins námu 325 m.kr. í árslok 2018. Húsnæðið sem TM notar í starfsemi sinni er að mestu leyti tekið að leigu, þar með taldar höfuðstöðvar félagsins að Síðumúla 24.

Óefnislegar eignir námu 489 m.kr. í árslok 2018 og voru annars vegar viðskiptavild að fjárhæð 100 m.kr. vegna kaupa á minnihluta í Líftryggingamiðstöðinni hf. og hins vegar eignfærður hugbúnaður.

Hlutur endurtryggjenda í vátryggingaskuld er færður sem endurtryggingaeignir en þær námu 720 m.kr. í árslok 2018 og hækka töluvert á milli ára vegna stórra tjóna sem fóru yfir endurtryggingamörk. Kröfur á endurtryggjendur vegna uppgerðra mála eru hins vegar færðar með viðskiptakröfum. Viðskiptakröfur námu 4.052 m.kr. í árslok 2018 og lækka um 12% á milli ára. Hlutfall viðskiptakrafna í árslok af iðgjöldum ársins er 25% en var 30% árið á undan.

Eigið fé og skuldir

Eigið fé nam 13.303 m.kr. í árslok 2018 en bundinn eiginfjárliður nemur 4.363 m.kr. Hann inniheldur m.a. óinnleystar gangvirðisbreytingar verðbréfa og hlutdeild í hagnaði dótturfélaga að frádregnum arðgreiðslum.

Í heild nam vátryggingaskuld TM 18.133 m.kr. í árslok 2018 og þar af var tjónaskuld 13.245 m.kr. eða 73%. Viðskiptaskuldir og aðrar skuldir lækka á milli ára en auk viðskiptaskulda er um að ræða skammtímaskuldir, áfallin gjöld og ógreiddan tekjuskatt.