Áhættustjórnun

Samhæfð áhættustýring TM starfar skv. áhættustýringarstefnu sem samþykkt er af stjórn og yfirfarin árlega. Samhæfð áhættustýring miðar að því að halda heildarsýn yfir alla áhættu félagsins og meta hvort hún sé í samræmi við áhættuvilja, fjárhagsstefnu og aðrar stefnur félagsins.

Stjórnendur stýra áhættu félagsins í samræmi við áhættuvilja TM sem stjórn setur og inniheldur áhættumörk sem félagið vill halda sig innan. Áhættustýring fylgist með og mælir áhættu og upplýsir stjórn félagsins í ársfjórðungslegum áhættuskýrslum um hvort áhættutaka og gjaldþol sé innan áhættumarka stjórnar.

Áhættuvilji TM

Áhættuvilji félagsins lýsir vilja félagsins til áhættutöku og færir stjórnendum þess heimild til áhættutöku innan ákveðinna marka. Með áhættuvilja TM er sett fram skýr stefna um fjárhaglegan styrk, nauðsynlegt gjaldþol og áhættumörk eru sett fyrir helstu áhættuþætti. Í ársfjórðungslegum áhættuskýrslum fylgist stjórn félagsins með áhættutöku þess og getur brugðist við ef áhætta er komin fram úr áhættuvilja stjórnar.

Fjárhagsstefna TM skilgreinir síðan nauðsynleg gæði og magn gjaldþolsliða og inniheldur arðgreiðslu- og endurkaupastefnu félagsins og lausafjárstefnu. Gjaldþolsstýring, fjárhagslegur styrkur og traust eignasafn eru grunnforsendur þess að TM geti tekið við og borið áhættu viðskiptavina félagsins. Félagið vill halda sterku gjaldþoli og jafnframt skila eigendum sínum stöðugum og góðum arði til langs tíma. Félagið er með styrkleikamatið B++ hjá matsfyrirtækinu AM Best.

Félagið hefur sett sér markmið um gjaldþolshlutfall upp á 1,5 með vikmörk frá 1,4 til 1,7. Fari gjaldþolshlutfallið út fyrir mörkin kallar það á viðbrögð stjórnar og starfsmanna.

Regluvarsla

Regluvarsla fylgist með öllum lagabreytingum og breytingum á stjórnvaldsfyrirmælum sem áhrif geta haft á starfsemi TM hvort sem um er að ræða innri rekstur eða þá þjónustu sem félagið veitir viðskiptavinum sínum. Hún stuðlar að því að veita stjórnendum, þ. á m. stjórn félagsins, og öðrum starfsmönnum upplýsingar og ráðgjöf með það að markmiði að starfsemi félagsins sé í alla staði í samræmi við lög og reglur, þ á m. eigin reglur og stefnur sem félagið setur sér.

Starfssvið tryggingastærðfræðings

Markmið TM er að nýta tryggingastærðfræði og tölfræði almennt til þess að efla starfsemi og stjórnun félagsins. Stærðfræðin er notuð í reglubundnum og tilfallandi verkefnum eins og eðlilegt er í vátryggingafélögum og er notkuninni hagað þannig að hún uppfylli löggjöf, staðla og góðar venjur.

Helstu tryggingastærðfræðileg verkefni eru að leggja mat á vátryggingaskuld félagsins þannig að matið sé ávallt tiltækt og að gögn sem þarf til sundurliðunar og skýringa séu góð, svo og að taka þátt í verðlagningu vátryggingaáhættu með áherslu á að byggt sé á góðum upplýsingum um iðgjöld og tjón. Stærðfræðingar félagsins koma einnig að öðrum reglubundnum eða tilfallandi verkefnum, meðal annars þætti vátryggingastarfseminnar í rekstrarspá félagsins.

Innri endurskoðun

Innri endurskoðendur hafa það að markmiði að efla virkni og gæði innra eftirlits og áhættustýringar ásamt því að styðja við góða stjórnarhætti með því að hafa reglubundið eftirlit með stöðu og framkvæmd þessara þátta. Í þessu skyni felast verkefni innri endurskoðunar m.a. í því að fara almennt yfir innra eftirlit félagsins með tilliti til virkni þess og gæða, athuga hvort unnið sé eftir þeim lögum og reglum sem félagið starfar eftir og fara yfir hvort verklags- og starfsreglur séu innleiddar með fullnægjandi hætti og hvernig tryggt sé að þeim sé framfylgt. Innri endurskoðanda ber að gera áætlun til þriggja ára til að tryggja að farið sé yfir alla þætti í innra eftirliti og áhættumati. Innri endurskoðun heyrir beint undir stjórn en formaður endurskoðunarnefndar er ábyrgðaraðili starfssviðsins. Innri endurskoðandi skal starfa óháð rekstrareiningum félagsins og gæta hlutlægni í störfum sínum. Stjórn TM útvistar starfsemi innri endurskoðunar m.a. á grundvelli útvistunarstefnu sinnar. Innri endurskoðun er nú útvistuð til KPMG.

Innra eftirlit

Innra eftirlitskerfi félagsins byggist á skýru stjórnskipulagi með aðgreiningu starfa og leiðbeiningum ásamt stjórnkerfi upplýsingaöryggis, allt undir eftirliti innri endurskoðunar. Innra eftirlit miðar að því að tryggja að félagið vinni sem best að rekstrarmarkmiðum sínum og öðrum markmiðum um starfsemina, að allar upplýsingar séu réttar og að gildandi löggjöf sé fylgt í starfsemi félagsins.