Hugsum í framtíð
Í byrjun árs 2018 kynnti TM uppfærða sýn á framtíðina þar sem félagið setti fram þann ásetning sinn að vera það félag sem er leiðandi í nýsköpun á íslenskum vátryggingamarkaði og í forystu þegar kemur að nýjungum í vöruframboði og þjónustu. Skilaboð félagsins til viðskiptavina TM eru Hugsum í framtíð og í því felst bæði hvatning til að huga að framtíðinni þegar ákvarðanir eru teknar í dag, sem er á margan hátt kjarninn í vátryggingastarfsemi, og sömuleiðis brýning til að festast ekki í farinu og fyrirkomulagi dagsins heldur taka breytingum og þróun opnum örmum.
Það er óþarfi að tíunda hvernig tækniframfarir hafa gjörbreytt því hvernig þjónusta og viðskipti fara fram og það á undraverðum tíma. Netverslun Íslendinga hefur t.a.m. vaxið ár frá ári og 2018 keyptu 74% Íslendinga vörur eða þjónustu á netinu skv. könnun Gallup. Í aldurshópnum 18–44 ára var þetta hlutfall yfir 90%. Sá tími þegar landsmenn fóru á söluskrifstofu til að kaupa flugfarseðil og í banka til að greiða reikninga er órafjarri og um þessar mundir eru t.d. matarinnkaup heimila að færast hröðum skrefum inn á netið því neytendur kjósa að nýta verðmætan tíma sinn annars staðar en í matvöruverslunum. Dæmin eru óteljandi.
Þessari þróun hefur TM tekið fagnandi og á árinu 2018 hleypti félagið af stokkunum margvíslegum nýjungum sem hafa það að markmiði að auka þægindi viðskiptavina, aðgengi þeirra að upplýsingum og möguleika á þjónustu á þeim tíma sem þeim hentar.
Í upphafi ársins 2018 kynnti félagið TM appið og var þar með fyrst íslenskra tryggingafélaga til að bjóða viðskiptavinum sínum slíka þjónustu. Í appinu hafa viðskiptavinir TM skýra og einfalda framsetningu á öllum upplýsingum sem varða sín viðskipti við félagið, útskýringar á mannamáli á því hvað tryggingarnar þeirra innifela, hvað er bætt, hvað ekki og síðast en ekki síst hvað þær kosta. Í appinu er sömuleiðis hægt að kalla fram skilmála hverrar vátryggingar ásamt vátryggingarskírteinum.
Þessu til viðbótar er í gegnum appið hægt að tilkynna til TM öll helstu tjón á heimilismunum, t.d. símum, tölvum og sjónvörpum, og fá bætur greiddar á hraða sem á sér fáar, ef nokkrar, hliðstæður í heiminum. Um fjórðungur allra viðskiptavina sem hafa tilkynnt slík tjón á heimilismunum sl. 12 mánuði hefur valið að nýta sér appið og hlutfall þeirra sem nota það fer stöðugt vaxandi. Það er vert að geta þess að yfir 40% þeirra tjóna sem hafa verið tilkynnt í appinu hafa fengið afgreiðslu utan venjulegs opnunartíma, þ.e. á þeim tíma sem viðskiptavininum hentar best.
Á vordögum bættist ný virkni við appið sem veitti viðskiptavinum TM enn meiri hugarró á ferðalögum erlendis. Í appinu var nú hægt að nálgast hnitmiðaðar útskýringar á ferðatryggingum og yfirlit yfir hvaða ferðatryggingar viðskiptavinurinn hefur hjá TM. Þar að auki var með appinu hægt að framvísa staðfestingu á gildi ferðatryggingar fyrir alla fjölskyldumeðlimi, senda slíka staðfestingu á ensku ef á þarf að halda og fá aðgang að neyðarþjónustu allan sólarhringinn með einum hnappi.
Launavernd TM var hleypt af stokkunum í haust. Með Launavernd TM gefst viðskiptavinum nú kostur á einstaklingsmiðaðri greiningu sem sýnir á einfaldan hátt hvernig fjárhagsleg afkoma fjölskyldu eða einstaklings breytist við fráfall, alvarleg veikindi eða örorku. Launavernd TM reiknar út réttindi hjá almannatryggingum, lífeyrissjóðum og stéttarfélögum og ráðleggur þá vátryggingavernd sem þarf til að mæta óskum viðskiptavinar um fjárhagslega stöðu sína eða fjölskyldu sinnar komi til andláts, veikinda eða slyss. Launavernd TM hjálpar viðskiptavinum að gera sér raunverulega grein fyrir sinni stöðu, samspili bótakerfa og gerir þeim kleift að vera rétt tryggðir í samræmi við sínar aðstæður.
Í lok ársins hóf TM svo sölu á tryggingum á netinu með aðstoð sýndarráðgjafans Vádísar. Einstaklingar geta nú keypt helstu tryggingar heimilisins á netinu hjá TM, fengið samstundis verð og klárað málið til enda með rafrænni uppsögn til annars vátryggingafélags, allt á nokkrum mínútum. Með þægilegu ferli og hnitmiðuðum spurningum eru þarfir viðskiptavinarins greindar og honum gert tilboð í þá vernd sem félagið ráðleggur. Viðskiptavinur getur síðan breytt, bætt við og tekið út valkvæða þætti allt eftir því sem honum hentar. Við kaup á ökutækjatryggingum virkjar viðskiptavinur svo kaskótrygginguna með því að taka myndir af bílnum í gegnum TM appið og sparar sér þannig sporin við að koma með bílinn í skoðun. TM er eina tryggingafélagið á Íslandi sem býður upp á stafræna þjónustu af þessu tagi og hún hefur fengið góðar viðtökur hjá neytendum.
Við hjá TM erum stolt af þeim nýjungum sem kynntar hafa verið á árinu en við erum hvergi nærri hætt. Tækniþróun og kröfur viðskiptavina knýja okkur áfram til að leita bestu leiða til að veita þjónustu og lausnir sem eru í takt við þarfir þeirra, þegar viðskiptavininum hentar. Við hlökkum til að kynna fleiri nýjungar á árinu 2019. Hugsum í framtíð.